Rob Bell stofnaði Mars Hill Bible Church í Michigan 1999, og leiddi starf kirkjunnar í 12 ár.

Bell ólst upp í evangelísku kirkjulífi í Bandaríkjunum og eftir grunn- og menntaskóla (e. High School) fór hann í Wheaton College í Illinois sem er einn af þekktari íhaldssömu kristilegu háskólum Bandaríkjanna. Þar reyndi hann fyrir sér sem popptónlistarmaður, en tók jafnframt að sér fræðslustörf í kristilegu æskulýðsstarfi.

Hann fór í guðfræðinám við Fuller Theological Seminary í Pasadena, Kaliforníu, stærsta guðfræðiskóla Bandaríkjanna. Meðfram námi starfaði hann sem æskulýðsfulltrúi og hélt áfram opnum draumum sínum um að vera popptónlistarmaður. Eftir nám hélt hann til Michigan ríkis þar sem hann var um tíma aðstoðarprestur.

Í febrúar 1999, stofnaði Bell síðan Mars Hill Bible Church í íþróttasal í Wyoming, Michigan. Innan við ári eftir stofnun fékk kirkjan að gjöf ónotaða verslunarmiðstöð. Starfið óx gífurlega og Þegar Bell dró sig í hlé árið 2011, mættu að jafnaði um 10.000 einstaklingar í guðsþjónustur í kirkjunni í viku hverri.

Starf og fræðsla Rob Bell í Mars Hill vakti athygli langt út fyrir Michigan, bækur hans seldust í bílförmum og Nooma fræðsluefnið hans var og er notað í safnaðarstarfi í fjölmörgum kirkjudeildum um öll Bandaríkin.

Áhersla Bell á elsku Guðs, var viðfang bókarinnar Love Wins, sem leiddi til sterkra viðbragða alstaðar í evangelísku kirkjulífi í Bandaríkjunum. Í bókinni leitast Bell við að benda á hvernig áhersla margra kristinna manna á helvíti og eilífa þjáningu vantrúaðra rými ekki endilega við boðskap Krists, um ást, frið, fyrirgefningu og gleði. Í bókinni rannsakar Bell ýmsar helvítiskenningar kristindóms og veltir fyrir sér uppruna og hlutverki þeirra. Án þess að taka skýra afstöðu, horfir Bell í bókinni með jákvæðum hætti á það sem stundum er kallað universalism, eða kenninguna um að allt sköpunarverkið verði endurleyst að lokum.

Fjölmargir guðfræðingar í Bandaríkjunum sáu sig tilneydda til að taka þátt í umræðu um bókina og fékk hún ítarlega umfjöllun í fjölmiðlum í Bandaríkjunum þegar hún kom út. Í júní 2011, nokkrum mánuðum áður en Bell dró sig í hlé í Mars Hill kirkjunni og í kjölfar útgáfu bókarinnar valdi Time Magazine Rob Bell á lista sinn yfir 100 áhrifamestu einstaklinga á jörðinni.

Ástæða þess að Rob Bell dró sig í hlé frá Mars Hill, var ekki ljós lengi vel, en Rob Bell hefur síðar talað um hvernig útgáfa bókarinnar Love Wins, hafi skapað spennu í söfnuðinum. Þessi spenna hafi leitt til þess að hann átti ekki lengur samleið með Mars Hill kirkjunni sem hann stofnaði.

Á síðustu árum hefur Rob Bell starfað með Oprah Winfrey. Hann heldur fyrirlestra og tekur þátt í fjölþættu samtali kirkju og samfélags á ýmsum vettvangi. Hann hefur jafnframt leitast við að greina og skilja evangelískan íhaldssaman kristindóm Bandaríkjunum í ljósi samtímans, enda á hann uppruna sinn í þeim trúarlega straumi.

Þannig hefur hann lýst vonbrigðum sínum yfir hvernig hans eigin trúarhefð hafi skorðað sig af út í horni, jafnt menningarlega og stjórnmálalega, í tilraun til að aðgreina sig frá meginstraumum samfélagsins. Þessi tilhneiging hafi leitt til þess að margir hverfi frá kirkjunni, enda sé kirkjan á stundum skaðleg og geri hluti í nafni Guðs sem við þurfum að iðrast. Kirkjan virðist jafnvel hafa gleymt því að hún sé kölluð til að móta fólk og styðja það í að sýna ást og samkennd.